Stoðkerfi

Verkir á einum stað í stoðkerfinu þurfa ekki endilega að vera bundnir eingöngu vandamáli í þeim líkamshluta. Þannig geta einkenni í baki leitt til verkjaleiðni í svæðum eins og mjöðmum, nára, lærum og fótum, svo eitthvað sé nefnt. Eins geta hálsvandamál leitt til höfuðverkja, svima, kjálkasmella, náladofa í höfði og/eða handleggjum og svona mætti lengi telja. Talið er að yfir 80% vestrænna manna muni finna fyrir stoðkerfiseinkennum? að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni.

Osteópatar eru fagmenn þjálfaðir til að greina og vinna með slík vandamál og fylgja þeim áfram til frekari greiningar ef þörf krefur. Osteópatía er yfir hundrað ára gömul stétt sem hefur í aldanna rás sannað gildi sitt. Osteópatinn greinir vandamálið, útskýrir feril meðferðarinnar ásamt því að veita ráðleggingar, og/eða vísar einstaklingnum til frekari rannsókna eða annarrar meðferðar ef þörf krefur.

Að halda liðum heilbrigðum

Heilbrigður líkami aðlagast vel því daglega áreiti sem fylgir heilbrigðum lífsstíl. Þegar einstaklingurinn eldist hægir á endurnýjun og sveigjanleiki minnkar og þar með aðlögunarhæfni líkamans í heild.

Þetta á sérstaklega við um liðbrjósk í liðum útlima og hryggjar. Þau blómstra með reglulegri hreyfingu sem eykur vökva- og blóðflæði sem færa liðunum næringu og súrefni.

10 ráðleggingar

  • Dagleg létt hreyfing og teygjur 
  • Regluleg markviss líkamsþjálfun 
  • Reglulegar hvíldir þegar verklag eða vinnuaðstaða eru einhæf 
  • Skiptið um stellingar, til að festast ekki í farinu 
  • Vinnið erfið verk í litlum skömmtum, t.d. garðyrkju 
  • Stillið bílsæti, breytið til á langferðum og stoppið reglulega 
  • Lítið eftir líkamsstöðu barna. Varist einhæfar stöður og burð s.s. hliðartöskur
  • Lyftið þungum hlutum varlega, t.d. þegar ferðast er með börn 
  • Finnið rúm og dýnu við hæfi
  • Ef upp kemur vandamál þá leitið osteópata eða annars sérfræðings fyrr en seinna