Meðganga
Meðgangan er náttúrulegt ferli þar sem miklar líkamlegar breytingar eiga sér stað til að takast á við það hlutverk að barnið geti dafnað og vaxið eðlilega í leginu. Jafnframt verður móðirin oft meðvitaðri sem aldrei fyrr um sinn eigin líkama á meðgöngunni. Þá verður sérstaklega mikil breyting á líkamsstöðu á tiltölulega skömmum tíma. Framanverður þunginn frá leginu veldur breytingu á þyngdarmiðju stoðkerfis, en auk þess framleiðir líkaminn hormónið relaxín sem mýkir öll liðbönd og vöðvafestingar, og líkamsstaðan breytist stöðugt frá einni viku til annarrar. Auk þess þarf móðirin að takast á við margskonar önnur einkenni eins og ógleði og uppköst, brjóstsviða, hægðartregðu og bakverki svo eitthvað sé nefnt. Allar þessar breytingar sem eiga sér stað, hvort sem það er háls og brjóstbaksverkir frá aukinni þyngd brjósta, hægðartregða frá hægari meltingarstarfsemi, eða bakverkir frá framanverðum þunga legsins og flæði hormóna, eru þó að mörgu leyti eðlilegar breytingar. Það er þó ekki þar með sagt að móðirin skuli þjást ein ef verkir eða önnur óþægindi eru mikil. Ýmis einkenni á meðgöngu geta sér í lagi orðið til meiri trafala ef vandamál eru til staðar fyrir meðgöngu. Þá má sem dæmi nefna að ef móðirin þjáist af hægðartregðu fyrir getnað, þá gæti það orðið til meira trafala á meðgöngu en ella. Því er mikilvægt að móðirin sé meðvituð um þær líkamlegu breytingar sem munu eiga sér stað á meðgöngunni og munu tryggja fyrirbyggjandi lausnir svo að meðgangan gangi sem áfallalausust fyrir sig.
Ungabörn
Fæðingarferlið er kraftmikið ferli og getur því haft mikil áhrif á líkamlega líðan ungabarnsins. Þar sem hver og ein fæðing er einstök, þá eru áhrifin á ungabarnið, við það að fara í gegnum fæðingarveginn, mjög mismunandi. Þar fyrir utan munu allar utanaðkomandi aðgerðir s.s. notkun sogklukku, deyfingar o.s.frv., sem oft eru óhjákvæmilegar aðgerðir, einnig hafa áhrif. Til að mynda getur sú mikla spenna í hálsi og höfði barnsins, sem myndast við það að fara í fæðingarveginn, haft áhrif á blóðflæði og taugaboð til og frá höfði og þannig stuðlað að magakveisu, bakflæði eða svefnerfiðleikum. Þó má heldur ekki gleyma að meltingarkerfið hjá ungabörnum er ekki fullþróað fyrr en einverjar vikum eftir fæðingu, sem að sjálfsögðu getur líka stuðlað að þessum vandamálum.
Hvernig getur osteópatía hjálpað?
Meðhöndlun hjá osteópata er áhrifarík leið til að hjálpa líkamanum að takast á við þær líkamlegu breytingar sem eiga sér stað á meðgöngunni. Þá er markmiðið með meðhöndluninni ekki einungis að minnka verki og önnur óþægindi sem móðirin upplifir, heldur einnig að undirbúa móðurina undir auðveldara meðgönguferli og fæðingu. Osteópatía getur meðal annars hjálpað með bak-, mjaðma-, grindar- og lífbeinsverki, auk þess að geta osteópatar sem hafa sérhæft sig til þess hjálpað með bakflæði, hægðatregðu og önnur meltingarvandamál. En þar fyrir utan getur osteópatía hjálpað með margskonar vandamál sem hrjáir móðurina eftir fæðingu.
Meðhöndlunin gæti einnig falið í sér sjálfshjálparráð varðandi hin ýmsu einkenni, líkamsstöðu og beitingu og þá sér í lagi þau áhrif sem líkamsstaða og stellingar móðurinnar hefur á stöðu og hreyfingu barnsins í leginu.
Hafi móðirin verið meðhöndluð af osteópata á meðgöngu, þá gæti henni verið ráðlagt að koma aftur í skoðun og meðhöndlun 4-6 vikum eftir fæðingu.
Jafnframt því að geta hjálpað móðurinni á meðgöngunni sjálfri og að henni lokinni, þá getur osteópatía hjálpað með margskonar vandamál er hrjá ungabörn. En osteópatía er mjög blíð, örugg og áhrifarík meðhöndlunaraðferð sem hefur sýnt sig að geta hjálpað með magakveisu, bakflæði og svefntruflanir svo eitthvað sé nefnt. Oft hefur meðhöndlunin þau áhrif að barnið róast og á auðveldara með svefn. Þó er alltaf erfitt að segja til um hvernig barnið mun bregðast við meðhöndluninni, því viðbrögð eru alltaf svo mismunandi milli einstaklinga. Þó má segja að því fyrr sem gripið er inn í, því betra, en ungabarnið mun ekki hafa gengið í gengum jafn langvinn vandamál og hinir fullorðnu og bregst því að öllu jöfnu fyrr við meðhöndlun.
Mundu að:
- Passa vel upp á bakið á þér á meðgöngunni. Sér í lagi skaltu fara varlega við það að bera og lyfta, og forðast að öllu jöfnu að lyfta neinu þungu.
- Þegar þú situr notaðu púða til að styðja við mjóbakið, eða sitja sem beinust í baki. Jafnframt skaltu forðast að sitja með krosslagða fætur, miklar hrygg- og mjaðmavindur og að sitja of fött eða hokin, með hné og mjaðmir yfir 90 gráður. Best er að skipta oft um stellingar, hreyfa mjaðmagrindina, ökkla og fætur til að örva blóðflæði. Jafnframt eru margar stöður og stellingar sem geta hjálpað sér í lagi á seinni hluta meðgöngunnar sem ýta undir að barnið fari rétt ofan í grindina, eða í höfuðstöðu. En osteópatinn þinn mun gefa þér upplýsingar varðandi þessar stöður og stellingar.
- Fá jafnframt ráð hjá þínum osteópata varðandi viðeigandi hreyfingu, æfingar, líkamsstöðu og beitingu sem henta þér og auðvelda þér meðgönguna.
- Þegar þú liggur á hliðinni skaltu setja púða, sem nær frá nára að ökklum, milli fótleggjanna. Auk þess er oft þægilegra að setja púða undir „bumbuna“ til stuðnings. Þegar þú liggur á bakinu skaltu ávallt hafa nóga púða undir hnjám. Á seinni hluta meðgöngu er oft síður ráðlagt, og einnig erfiðara, að liggja mikið á bakinu, en ef þér þykir það þægilegra, þá er ráðlagt að setja stóra púða undir höfuð, háls og efra brjóstbak.
- Passa að skiptiborðið, kerran, vagninn og annar búnaður sé í réttri vinnuhæð fyrir þig.