Börn og táningar

Á þeim árum er við vöxum úr grasi gengur líkaminn í gegnum stöðugar og hraðar breytingar. Það eru án efa þær breytingar, upplifanir og vandamál, líkamleg sem andleg, sem upp koma á barna- og táningsárunum, sem koma til með að móta einstaklinginn hvað mest. En það er einmitt á þessum árum sem við komum okkur upp vönum, þá bæði góðum og slæmum, sem oft fylgja okkur út lífsleiðina. Af þeim sökum er mikilvægt að hlúa vel að líkamanum á þessum árum t.d. með að venja sig á góða líkamsstöðu og -beitingu, hvernig við tökumst á við streitu og læra að hlusta á líkamann.

Ungabörn þjást oft af magakveisu, bakflæði og fá tíðar eyrnasýkingar eða kinnholsbólgur, á meðan eldri börn gætu þjást af astma eða magaverkjum. Táningurinn gæti hins vegar átt við höfuð- eða bakverki að stríða, sér í lagi sökum þungans frá skólatöskunni og að sitja hokinn fyrir framan tölvu eða sjónvarpið stóran hluta af deginum. Þar fyrir utan þá stunda margir táningar margskonar íþróttir af miklum krafti, sem oft leiða til meiðsla sem, ef ekki eru meðhöndluð á réttan hátt, geta valdið vandamálum síðar á lífsævinni. Auk þess er það yfirleitt á táningsárunum sem vinnuferillinn hefst, sem veldur auknu álagi á vaxandi líkama.

Hið aukna álag sem verður á líkamann, hvort sem er vegna þeirra líkamlegu breytinga sem eiga sér stað, meiðsla, veikinda eða slæmra vana, getur haft varanleg áhrif ef ekki er gripið inn í nógu snemma og getur stuðlað að krónískum vandamálum seinna á lífsleiðinni.

Hvernig getur osteópatía hjálpað?

Osteópatía er áhrifarík og náttúruleg leið til meðhöndlunar margvíslegra vandamála sem hrjá börn og táninga, auk þess að ýta undir góða lífstílsvana og stuðla að góðri almennri heilsu.

Osteópatar hafa fjögurra ára háskólamenntun að baki og eru sérmenntaðir í að greina og meðhöndla margskonar vandamál tengd stoðkerfinu. Osteópatinn kemur til með að fara ítarlega yfir sögu og þróun á vandamáli viðkomandi. Því næst er farið yfir sjúkrasögu þ.e. veikindi, meiðsli og aðgerðir. Síðan fer skoðun fram, þar sem eru framkvæmd bæklunar- og hreyfifræðileg próf ef þörf er á. Að lokum er mynduð greining á vandamáli viðkomandi og einstaklingsmiðuð meðhöndlun sniðin eftir því.   

Meðhöndlun hjá osteópata miðar að því að hjálpa líkamanum að aðlagast þeim líkamlegu breytingum sem eiga sér stað í gegnum lífsleiðina, og að takast rétt á við meiðsli og önnur vandamál. Það gefur því auga leið að því fyrr á lífsleiðinni sem gripið er inn í þegar vandamál kemur upp, því auðveldara er að takast á við vandamálið. Osteópatinn gefur einnig ráð varðandi líkamsstöðu og -beitingu, matarræði, hreyfingu og aðra lífstílstengda þætti svo minni líkur sé á að slæmir vanar komi til með að fylgja viðkomandi gegnum lífið og valda krónískum vandamálum.

Í sumum tilvika, þegar vissum árangri hefur verið náð með meðhöndlun, mun osteópatinn leggja til skoðun og meðhöndlun á einhverra vikna, mánaða eða ára fresti, til að fylgjast með að ekki verði frekari slæm þróun á vandamáli viðkomandi og þannig koma í veg fyrir meira og stærra vandamál síðar á lífsleiðinni.